
Knattspyrnufélag Rangæinga vann þægilegan sigur á nágrönnum sínum frá Stokkseyri í 5. deild karla á Hvolsvelli í dag.
Rangæingar voru sterkari í fyrri hálfleik en Hlynur Kárason, markvörður Stokkseyrar, hélt sínum mönnum inni í leiknum lengst af leiks. Hann varði vítaspyrnu frá Hjörvari Sigurðssyni strax í upphafi leiks og átti góðar vörslur í kjölfarið.
Eitthvað varð þó undan að láta og á 28. mínútu braut Helgi Valur Smárason ísinn með góðu marki. Bjarni Þorvaldsson vildi ekki vera minni maður og strax í næstu sókn tvöfaldaði hann forskot Rangæinga.
Staðan var 2-0 í hálfleik en Stokkseyringar vöknuðu aðeins til lífsins í seinni hálfleiknum. Þeim gekk þó ekki vel að skapa færi en Rangæingar voru skeinuhættari og áfram hélt Hlynur að verja vel í marki Stokkseyrar. Hann kom þó engum vörnum við á 72. mínútu þegar Bjarni skoraði aftur og reyndist það síðasta mark leiksins. Lokatölur 3-0.
KFR er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir en Stokkseyringar eru enn stigalausir.
