KFR situr sem fastast á botninum

KFR situr sem fastast í botnsæti 2. deildar karla í knattspyrnu en liðið tapaði í gærkvöldi á heimavelli gegn Gróttu.

Grótta komst yfir strax á 13. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Fyrri hálfleikur var í járnum en Grótta hafði yfirhöndina þó að Rangæingar væru oft hættulegir í skyndisóknum.

Barningurinn hélt áfram í síðari hálfleik og var fátt um opin færi en gestirnir af Seltjarnarnesi gerðu svo út um leikinn með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla. Rangæingar ógnuðu helst eftir föst leikatriði og uppúr einu slíku uppskáru þeir vítaspyrnu á síðustu andartökum leiksins.

Mariusz Baranowski fór á punktinn og skoraði með bókstaflega síðustu spyrnu leiksins og lokatölur urðu 1-3.

KFR er í botnsætinu með fjögur stig og hefur leikið einum leik meira en Fjarðabyggð sem er með fimm stig og Hamar sem er með átta stig.

Fyrri greinSlasaðist í mótorhjólaárekstri
Næsta greinÓtrúlegur sigur hjá Árborg