Knattspyrnufélag Rangæinga vann mikilvægan sigur í toppbaráttu B-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið sótti ÍH heim.
ÍH, sem situr í toppsæti riðilsins, byrjaði betur og komst yfir á 10. mínútu en Hjalti Kristinsson jafnaði metin á 26. mínútu. Mörkunum rigndi á þessum kafla því þremur mínútum síðar komst ÍH í 2-1 og fjórum mínútum eftir það jafnaði Jóhann Gunnar Böðvarsson aftur fyrir KFR.
Hjörvar Sigurðsson kom Rangæingum svo í 2-3 á 44. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Heimamenn fengu vítaspyrnu á upphafsmínútum seinni hálfleiks og jöfnuðu úr henni, 3-3. Sigurmark Rangæinga leit svo dagsins ljós um miðjan seinni hálfleikinn en það var sjálfsmark ÍH-manna.
Þrátt fyrir þungar sóknir tókst liðunum ekki að bæta við mörkum á lokakaflanum og KFR hélt fengnum hlut.
KFR hefur 22 stig í 3. sæti riðilsins en ÍH er áfram í toppsætinu, með 30 stig.