Sunnlensku liðin í 5. deild karla í knattspyrnu léku öll í dag. KFR vann stórsigur á Reyni Hellissandi, Stokkseyringar sigruðu í sínum fyrsta leik í sumar en Uppsveitir töpuðu naumlega á heimavelli.
Það var boðið upp á SS-pylsuveislu í Ólafsvík þar sem Rangæingar léku á als oddi gegn Reynismönnum frá Hellissandi. Bjarni Þorvaldsson opnaði leikinn á glæsimarki og á eftir fylgdu mörk frá Guðmundi Brynjari Guðnasyni og tvö mörk frá Helga Val Smárasyni áður en Hjörvar Sigurðsson átti lokaorðið í fyrri hálfleik. Staðan var 0-5 í hálfleik.
Reynismenn urðu fyrir því óláni að skora sjálfsmark í upphafi seinni hálfleiks áður en Helgi Valur innsiglaði þrennuna. Varamennirnir Sveinn Skúli Jónsson og Dagur Þórðarson skoruðu svo á lokakaflanum og tryggðu KFR 0-9 sigur.
Stokkseyringar hafa farið illa af stað á Íslandsmótinu en þeir unnu loks sinn fyrsta sigur í deildinni í dag þegar þeir heimsóttu Afríku. Bæði lið voru stigalaus fyrir leikinn. Sindri Þór Arnarson kom Stokkseyri í 1-0 en Afríka jafnaði 1-1. Sindri var hins vegar aftur á ferðinni með sitt annað mark og rak smiðshöggið á 1-2 sigur Stokkseyrar.
Á Flúðum tóku Uppsveitir á móti Herði frá Ísafirði. Þetta var hörkuleikur og markalaus lengi vel. Staðan var 0-0 í hálfleik en þegar rúmt korter var liðið af seinni hálfleiknum skoruðu Harðarmenn eina mark leiksins og tryggðu sér 0-1 sigur.
Staðan í riðlinum er þannig að KFR er í 3. sæti með 15 stig, Uppsveitir eru í 6. sæti með 7 stig og Stokkseyri í 7. sætinu með 3 stig.