KFR skoraði níu mörk

Hákon Kári Einarsson skorar hér gegn Uppsveitum í síðustu viku og hann skoraði aftur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga heimsótti Afríku í Breiðholtið í Reykjavík í 5. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Rangæingar höfðu mikla yfirburði í leiknum og staðan var 0-3 í hálfleik eftir að Þórbergur Egill Yngvason hafði skorað tvívegis og Hákon Kári Einarsson eitt mark.

Aron Birkir Guðmundsson bætti fjórða marki KFR við á upphafsmínútum seinni hálfleiksins en Afríka minnkaði muninn í 4-1 um hann miðjan. KFR lokaði hins vegar leiknum með fimm mörkum á fimmtán mínútum undir lokin. Hjörvar Sigurðsson og Gísli Ísar Úlfarsson skoruðu sitt hvort markið á meðan Helgi Valur Smárason hlóð í þrennu og lokatölur leiksins urðu 1-9.

KFR er komið í toppsæti riðilsins um stundarsakir, með 21 stig, en Mídas og Smári sem eru í 2. og 3. sæti eiga leik til góða á Rangæingana.

Fyrri greinÞyrla sótti slasaðan göngumann
Næsta greinNýir eigendur að Samúelsson matbar