KFR vann góðan sigur á Reyni Sandgerði í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Hamar tapaði á útivelli gegn Gróttu.
Reynir byrjaði betur í leiknum gegn KFR og leiddi í hálfleik, 0-1. Sandgerðingar bættu við öðru marki í upphafi síðari hálfleiks en Rangæingar létu það ekki slá sig út af laginu í rokinu á Selfossvelli.
Hjörvar Sigurðsson skoraði tvívegis fyrir KFR og jafnaði metin en það var Helgi Ármannsson sem tryggði Rangæingum 3-2 sigur með glæsilegu skoti á 90. mínútu í þverslána og inn, upp við samskeytin. Þetta voru fyrstu stig KFR í riðlinum að loknum tveimur leikjum.
Hamar sótti Gróttu heim á Seltjarnarnesið fyrr í dag. Það blés ekki byrlega fyrir Hvergerðingum í upphafi leiks því eftir 22. mínútna leik höfðu heimamenn skoraði þrjú mörk gegn engu. Samúel Arnar Kjartansson minnkaði muninn í 3-1 á 27. mínútu en Grótta bætti fjórða markinu við fyrir hálfleik.
Eina mark síðari hálfleiks var svo sjálfsmark Gróttumanna í upphafi seinni hálfleiks. Lokatölur 4-2 og Hvergerðingar luku leik manni færri þar sem Sveinn Fannar Brynjarsson fékk rautt spjald á 78. mínútu. Hamar er á botni riðilsins án stiga eftir tvo leiki.