Knattspyrnufélag Rangæinga hafnaði í 4. sæti í 5. deild karla í knattspyrnu en liðið tapaði í kvöld úrslitaleik um 3. sætið gegn Úlfunum.
Leikið var á Framvellinum og þar komust Úlfarnir yfir á 11. mínútu en Rangæingar svöruðu með þremur mörkum og voru komnir í álitlega stöðu í hálfleik. Helgi Valur Smárason skoraði tvívegis og Bjarni Þorvaldsson kom KFR í 1-3 á 34. mínútu.
Hlutirnir snerust til verri vegar í seinni hálfleik, Úlfarnir minnkuðu muninn strax í upphafi seinni hálfleiks og þeir jöfnuðu svo metin tuttugu mínútum fyrir leikslok. Þrátt fyrir góðar tilraunir tókst hvorugu liðinu að knýja fram sigur í venjulegum leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar. Þar reyndust Úlfarnir sterkari, þeir skoruðu tvívegis og tryggðu sér 5-3 sigur.