KFR vann einvígið um 2. deildarsætið

Knattspyrnufélag Rangæinga tryggði sér í kvöld sæti í 2. deild karla í fyrsta sinn með því að gera 2-2 jafntefli við KB í Breiðholti í seinni leik liðanna í úrslitakeppni 3. deildar.

Leikurinn var tíðindalaus fyrsta hálftímann en heimamenn voru hættulegri og einhver skrekkur virtist vera í Rangæingum sem héldu boltanum illa.

Þeir fengu þó ágætt færi á 32. mínútu þegar besti maður liðsins í kvöld, Helgi Ármannsson, óð upp að vítateig KB og lét vaða en boltinn fór rétt framhjá. Tveimur mínútum síðar skoraði KB mark sem dæmt var af vegna rangstöðu.

Á 38. mínútu dró loks til tíðinda. KB menn sendu langan bolta fram völlinn þar sem Maciej Majewski, markvörður KFR, fór í fáránlega langt skógarhlaup og missti sóknarmann og bolta framhjá sér. Gunnar Wigelund kom boltanum því auðveldlega yfir línuna og KB leiddi 1-0.

Fimm mínútum síðar fengu Rangæingar hornspyrnu og eftir klafs í teignum lak boltinn löturhægt undir markmann KB og framhjá varnarmönnum í stöngina og inn. Það var Þórhallur Lárusson sem hafði rekið tána í boltann í öllum barningnum í teignum og Rangæingar fögnuðu vel.

Staðan var 1-1 í hálfleik en strax á 3. mínútu síðari hálfleiks komust Rangæingar yfir með marki frá Reyni Björgvinssyni. Andrezej Jakimczuk tók aukaspyrnu vinstra megin við vítateig KB manna sem gleymdu Reyni aleinum á fjærstöng og kláraði hann færið sitt mjög vel.

Þetta reyndist vera eina færi KFR í seinni hálfleik því eftir þetta tóku KB menn öll völd á vellinum og jöfnuðu leikinn rúmum fimm mínútum síðar með glæsilegu langskoti upp í samskeytin á marki KFR.

KB var meira með boltann en gekk illa að finna glufur á vörn KFR. Tvívegis vildu heimamenn fá vítaspyrnu og höfðu nokkuð til síns máls í annað skiptið en slakur dómari leiksins lét kröfur þeirra sem vind um eyru þjóta.

Á lokakaflanum gerði KB harða hríð að marki KFR en varnarmennirnir af Rangárvöllum stóðust öll þeirra áhlaup og þó að KB menn væru líklegri til að skora fengu þeir ekki færi fyrr en á 94. mínútu að þeir áttu skalla framhjá markinu eftir hornspyrnu.

Dómarinn flautaði leikinn af á 95. mínútu og Rangæingar fögnuðu ógurlega ásamt stuðningsmönnum sínum sem fjölmenntu á leikinn og létu vel í sér heyra allan tímann.

kfrUPP070911gk_648930636.jpg
Freyðivínið flæddi í leikslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinBjörguðu kind úr djúpri gjá
Næsta grein„Þetta er mjög einföld uppskrift“