KFR tók á móti Uppsveitum í 5. deild karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í kvöld. Rangæingar komust létt frá leiknum og unnu 5-0 sigur.
KFR stjórnaði umferðinni nánast allan leikinn. Uppsveitir sýndu lit um miðjan fyrri hálfleikinn en eftir að Helgi Valur Smárason kom KFR yfir á 30. mínútu var allur vindur úr Uppsveitamönnum og KFR kláraði leikinn auðveldlega. Hjörvar Sigurðsson bætti við öðru marki á 37. mínútu og staðan var 2-0 í hálfleik.
KFR sótti stíft í seinni hálfleiknum en mörkin létu á sér standa. Helgi Valur breytti stöðunni í 3-0 á 63. mínútu en það var ekki fyrr en á síðustu fimm mínútunum að stíflan brast og þeir Hákon Kári Einarsson og Hjörvar Sigurðsson bættu þá við mörkum. Lokatölur 5-0 fyrir KFR.
Staðan í B-riðlinum er þannig að KFR er í 3. sæti með 18 stig, þremur stigum á eftir toppliði Mídasar. Uppsveitir eru í 6. sætinu með 7 stig.