KFR vann Suðurlandsslaginn

KFR sneri leiknum sér í vil í síðari hálfleik og skoraði þá þrjú mörk þegar liðið lagði Hamar 2-4 í Suðurlandsslag í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Rangæingar voru ákveðnari framan af fyrri hálfleik en bæði lið náðu að skapa sér góð færi í upphafi leiks. KFR var meira með boltann en Hamar átti stórhættulegar skyndisóknir þar sem knötturinn gekk vel manna á milli.

KFR vörnin leit ekki nógu vel út á köflum og það var því ekki beint óvænt að Samúel Arnar Kjartansson refsaði Rangæingum með góðu skoti utarlega í vítateignum á 13. mínútu leiksins. 1-0.

Rangæingar voru fljótir að jafna en tveimur mínútum síðar náði Guðbergur Baldursson að koma knettinum í netið eftir atgang í markteig Hvergerðinga uppúr aukaspyrnu Andra Freys Björnssonar.

Hvergerðingar komust aftur yfir á 21. mínútu þegar Samúel Arnar skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að dómaranum virtist að brotið væri á Kjartani Guðjónssyni í vítateig KFR.

Bæði lið fengu dauðafæri til að bæta við mörkum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en Hvergerðingar fóru með eins marks forskot inn í hálfleikinn, 2-1.

Rangæingar settu pressu á Hamarsmenn í upphafi síðari hálfleiks og Þórhallur Lárusson jafnaði metin strax á 49. mínútu. KFR lét kné fylgja kviði og juku pressuna í kjölfar jöfnunarmarksins og eins og áður í sumar fór Hamarsvörnin að titra. Það skilaði öðru marki Rangæinga þremur mínútum síðar og þar var Helgi Ármannsson að verki.

Þegar leið á seinni hálfleikinn þyngdust sóknir Hvergerðinga en þeir náðu ekki að koma boltanum í netið þrátt fyrir ágætis tilþrif. Vörn KFR hélt vel og liðið svaraði með góðum skyndisóknum og úr einni slíkri skoraði Helgi sitt annað mark á 90. mínútu og tryggði KFR 2-4 sigur.

Eftir leikinn eru Hvergerðingar orðnir nokkuð einmana í botnsætinu en að átta umferðum loknum hefur Hamar ekki ennþá unnið leik í deildinni. KFR er í næst neðsta sæti með sjö stig.

Fyrri greinOil pulling
Næsta greinÞriðji sigur Ægis í röð