Hamar tapaði fyrir KFS í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í gær, 2-3. Leikið var í strekkingsvindi á gervigrasinu á Selfossi.
Fyrri hálfleikur var markalaus en Hamarsmenn voru meira með boltann. KFS gerði síðan út um leikinn á sex mínútna kafla í síðari hálfleik með þremur mörkum.
Eftir að hafa fengið þessa gusu framan í sig stilltu Hvergerðingar sig af í sóknarleiknum og skoruðu tvö mörk á síðustu tíu mínútunum. Í bæði skiptin var þar að verki nýjasti leikmaður liðsins, Haraldur Árni Hróðmarsson.
Þrátt fyrir fleiri færi á lokamínútunum tókst Hamri ekki að jafna.
Hamar hefur tapað báðum leikjum sínum í riðlinum og leikur næst gegn Víkingi frá Ólafsvík föstudaginn 9. apríl.