Kia Gullhringurinn flytur sig á Selfoss

Ljósmynd/Aðsend

Vinsælasta hjólreiðakeppni landsins Kia Gullhringurinn fagnar tíu ára afmæli á þessu ári. Keppnin hefur farið fram á Laugarvatni en í sumar verður keppnin ræst í miðbæ Selfoss laugardaginn 10. júlí.

Keppnisbrautirnar munu liggja um láglendið í kring um Selfoss og keppendur munu þræða sig um Árborgarsvæðið með viðkomu á Stokkseyri og Eyrarbakka. Með þessum breytingum verður hægt að bjóða upp á keppnisbraut fyrir krakka og fjölskylduvæna skemmtibraut sem skipuleggjendur hafa ekki geta boðið upp á áður. Um leið eru þrjár brautir í boði fyrir þá sem vilja fara lengri vegalengdir og keppa við sig og aðra.

„Við byrjuðum óformlegar viðræður snemma á árinu 2020 með sumarið 2021 að leiðarljósi. Við höfum rætt við stjórnendur Árborgar, lögregluna á Selfossi og Vegagerðina en þetta eru allt lykilaðilar í því að skapa vel heppnaðan og öruggan vettvang fyrir svona umfangsmikla keppni,“ segir Þórir Erlingsson, mótsstjóri.

„Það er frábært að geta nú boðið upp á svona mikla breidd en það sem hefur skipt okkur mestu máli í þessum flutningi á keppninni er það að núna getum við boðið keppendum okkar upp á að hjóla í braut sem er lokuð almennri umferð. Það er bylting í keppnishaldi hjólreiða á Íslandi“ bætir hann við.

Besta brúsapalla-partýið
Keppnin í ár verður ekki bara á milli hjólreiðafólks heldur munu ábúendur í kringum keppnisbrautirnar keppa sín á milli um bestu hvatningarstöðina. Hefð hefur skapast um það í hjólreiðakeppnum um allan heim að íbúar og áhorfendur safnist saman í kringum keppnisbrautir sem þessar. Til þess að gera umhverfið og stemmninguna í kringum keppnina enn skemmtilegri verða veitt þrenn verðlaun, fyrstu, önnur og þriðju fyrir slíkar hvatningarstöðvar. Hvatningarstöðvarnar hafa fengið nafnið Brúsapalla-partý sem á vel við í Flóanum heimasveit Bjössa á mjólkurbílnum. Titilinn vinnur sá bær sem stillir upp litríkustu og skemmtilegustu hvatningarstöðinni fyrir keppendur.

Stórar hvatningarstöðvar í kjörnunum
Á Stokkseyri verður safnast saman við Orku stöðina þar munu skipuleggjendur bjóða í grillpartý fyrir bæjarbúa og tónlistarflutning. Á Eyrarbakka verður mikið húllumhæ við Húsið en þar ætla keppnishaldarar að skipuleggja skemmtilegan viðburð í samvinnu við Byggðasafn Árnesinga og fornbílaeigendur þar sem keppendur og áhorfendur ferðast aftur í tímann.

Leiðirnar sem hjólaðar verða í keppninni.
Fyrri greinSelfossvörurnar fást í Stúdíó Sport
Næsta greinPróflaus ökumaður á hrakhólum