Sigurður Karl Guðgeirson og og Ása Guðný Ásgeirsdóttir lýsa hjólreiðakeppninni KIA Gullhringnum í dag í beinni útsendingu á mbl.is og Facebook-síðu keppninnar.
Útsending hefst klukkan 17:00 frá nýja miðbænum á Selfossi þar sem upphitunin fyrir keppnina verður þá hafin. Ræsingar í keppninni hefjast klukkan 18:00 og útsendingunni lýkur að lokinni verðlaunaafhendingu.
Alls verða sex myndavélar í verkefninu. Þrjár vélar í brautinni fyrir framan fremstu flokka í hverri vegalengd. Þrjár annars staðar við mörk mótsins, bæði tímamark og lokamark og á Brúartorginu þar sem allt fer fram í kringum mótið.
Á Brúartorgi er búið að koma upp 15 fermetra LED skjá þar sem útsendingin verður sýnd og því missir engin áhorfandi af neinu sem er að gerast í brautinni allan tímann. Vinir og aðdáendur geta fylgst með keppninni út um allan heim á mbl.is og fyrir þá sem eru á Selfossi og í kringum brautina sjá nákvæmlega hvar fremstu þátttakendur eru í brautinni.