
Á 103. héraðsþingi Héraðssambandsins Skarphéðins í Aratungu síðastliðinn fimmtudag var Kjartan Lárusson, Umf. Laugdæla, sæmdur heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, en það er æðsta heiðursmerki ÍSÍ.
Kjartan, sem varð sjötugur á dögunum, hefur verið í forystusveit íþróttahreyfingarinnar í rúm 50 ár. Hann var kosinn formaður Umf. Laugdæla árið 1974 og hefur verið sjálfboðaliði í hreyfingunni óslitið síðan. Hann hefur tekið virkan þátt í stjórnar- og nefndarstörfum HSK í áratugi, var gjaldkeri sambandsins 1980-1982, formaður glímunefndar og síðan gjaldkeri Glímuráðs Skarphéðins frá stofnun þess árið 1998 til 2007. Kjartan er í dag formaður sögu- og minjanefndar HSK.
Hann sat í stjórn Glímusambands Íslands og var varaformaður þess um tíma. Þá var hann í um 20 ár í stjórn Glímudómarafélags Íslands, þar af sem formaður í um 15 ár og er enn að sem glímudómari.
Á íþróttaferli sínum var Kjartan mikill keppnismaður, svosem í körfuknattleik, blaki og glímu en hann var meðal annars í gullaldarliði Laugdæla sem vann Íslandsmeistaratitilinn í blaki 1979 og 1980.
Kjartan hefur hlotið margháttaðar viðurkenningar fyrir störf sín innan íþróttahreyfingarinnar. Hann hefur verið sæmdur gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Glímusambands Íslands, HSK og Umf. Laugdæla. Hann er heiðursfélagi Glímusambands Íslands, hefur hlotið nafnbótina öðlingur ársins hjá HSK, auk þess að hafa hlotið starfsmerki UMFÍ. Glímusamband Íslands útnefndi Kjartan sem Glímueldhuga ársins 2024.
Þorbjörg sæmd gullmerki ÍSÍ
Á þinginu í Aratungu sæmdi ÍSÍ einnig Þorbjörgu Vilhjálmsdóttur, Íþróttafélaginu Suðra, gullmerki ÍSÍ. Hún hefur í áratugi unnið að framgangi íþrótta fatlaðra innan íþróttahreyfingarinnar. Fyrst með Íþróttafélaginu Eik á Akureyri en eftir að hún flutti suður tók hún til starfa hjá Suðra og var meðal annars formaður félagsins frá 2006 til 2012. Þorbjörg hefur verið formaður íþróttanefndar fatlaðra hjá HSK frá árinu 2013. Hún hefur verið leiðandi í því að koma á samstarfi milli Suðra og Gnýs, sem er íþróttafélagið á Sólheimum. Þá hefur hún tekið þátt í verkefnum Íþróttasambands fatlaðra til fjölda ára.
