FSu var hársbreidd frá sigri í sínum fyrsta leik í Domino's-deild karla í körfubolta í vetur. Grindavík kom í heimsókn í Iðu og tryggði sér 84-85 sigur þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum.
„Við spiluðum ágætlega á köflum, en við vorum ekki mjög góðir varnarlega og það var algjört klúður að stinga þá ekki af í fyrri hálfleik. Það er erfitt að segja það strax eftir leik hvað gerðist, en mér fannst við gefa þeim of auðveldar körfur. Í lok leiks vorum við með leikinn í okkar höndum þannig að það er hræðilegt að tapa þessu,“ sagði Ari Gylfason, leikmaður FSu, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Ari var stigahæstur hjá FSu með 23 stig en hann raðaði niður þristunum í fyrri hálfleik. „Ég hefði samt mátt hitta betur. Það var kannski ekki planið að skjóta svona mikið fyrir utan en ég skýt alltaf mikið og hef trú á sjálfum mér. Ég var bara of stuttur í dag og þreyttur í löppunum,“ sagði Ari og bætti við að það væri gaman að vera kominn á stóra sviðið með FSu liðinu.
„Þetta er mjög gaman. Það er langt síðan ég hef hlakkað jafn mikið til fyrir leik. Úrslitin eru svekkjandi en þetta er bara fyrsti leikurinn. Við töpum með einu stigi núna og ég hef fulla trú á því að við komum sterkir til baka þegar við mætum ÍR á sunnudaginn.“
Grindavík skoraði fyrstu fimm stigin í leiknum en þá svaraði Christopher Anderson með átta stigum í röð og eftir það hélt FSu forystunni út fyrri hálfleikinn. Liðið lék mjög vel á köflum og náði mest 14 stiga forystu en Grindvíkingar komu til baka og jöfnuðu í upphafi seinni hálfleiks.
Staðan í leikhléi var 51-45 en Grindavík náði frumkvæðinu í seinni hálfleik. Anderson fékk sína fjórðu villu um miðjan 3. leikhluta, var bekkjaður í kjölfarið og það munaði mikið um fjarveru hans. Leikurinn var þó í járnum og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokamínútunni.
FSu missti boltann útaf þegar tólf sekúndur voru eftir í stöðunni 84-83 og Grindvíkingar skoruðu tveggja stiga körfu þegar fjórar sekúndur voru eftir. Það reyndist sigurkarfa leiksins því FSu tókst ekki að ná góðu skoti á síðustu sekúndunum.
Tölfræði FSu: Ari Gylfason 23 stig/5 fráköst, Christopher Anderson 17 stig/4 fráköst, Cristopher Caird 16 stig/10 fráköst/8 stoðsendingar, Gunnar Ingi Harðarson 13 stig/4 fráköst, Hlynur Hreinsson 9 stig, Maciej Klimaszewski 4 stig, Arnþór Tryggvason 2 stig/9 fráköst.
Tölfræði Grindavíkur: Jón Axel Guðmundsson 16 stig/10 fráköst/10 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 13 stig/5 fráköst, Hilmir Kristjánsson 13 stig/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 13 stig/8 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 12 stig/7 fráköst/7 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 10 stig, Jens Valgeir Óskarsson 8 stig/5 fráköst.