Knattspyrnan og handboltinn fengu mest

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verkefnasjóður Héraðssambandsins Skarphéðins afgreiddi seinni úthlutun ársins 2017 á dögunum. Knattspyrnu- og handknattleiksdeildir Selfoss fengu hæstu styrkina að þessu sinni.

Knattspyrnudeild Selfoss fékk fjóra styrki, samtals 305.000 krónur vegna unglingalandsliðsfólks og námskeiða og handknattleiksdeild Selfoss fékk fjóra styrki, samtals 300.000 krónur, einnig vegna unglingalandsliðsfólks og námskeiða.

Frjálsíþróttadeild Selfoss fékk 120.000 króna í afreksstyrk og vegna A-landsliðsvals.

Þá fengu Ungmennafélag Hrunamanna, Ungmennafélag Selfoss, júdódeild Selfoss og Skotíþróttafélagið Skyttur 30-45 þúsund króna styrki vegna unglingalandsliðsfólks og námskeiðahalds.

Tilgangur verkefnasjóðsins er að styrkja félags- og íþróttastarf á sambandssvæði HSK, vegna landsliðsfólks, þjálfara og dómaramenntunar og nýjunga í starfi, svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnasjóðurinn styrkti þrjátíu verkefni á árinu en í fyrri úthlutuninni voru samtals veittir styrkir upp á rúmlega 2,6 milljónir króna. Samtals voru því greiddar tæplega 3,6 milljónir króna úr verkefnasjóðnum á árinu.

Fyrri greinAllir stóðu sig með prýði á judómóti HSK
Næsta greinTímamótasamningur Geysis og sveitarfélaganna