Kolbeinn Loftsson, Umf. Selfoss, bætti tvö Íslandsmet í flokki 11 ára pilta á Áramóti frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss sl. mánudag. Átta HSK met voru sett á mótinu.
Kolbeinn þríbætti HSK metið í jafnmörgum tilraunum í þrístökki án atrennu. Hann byrjaði á að stökkva 6,29 metra og bætti þar með met Jóns Birgis Guðmundssonar og Styrmis Dan Steinunnarsonar um níu sentimetra. Met Jóns hafði staðið í 36 ár, en Styrmir jafnaði met Jóns fyrir þremur árum. Kolbeinn bætti svo eigið met í öðru stökki sínu í 6,44 metra og í þriðju tilraun bætti hann um betur og stökk 6,74 metra. Þar með stórbætti hann landsmetið í greininni, en það var í eigu Svavars Ingvarssonar frá árinu 2002 og var 6,49 metrar.
Kolbeinn lét ekki þar við sitja því hann sett landsmet og HSK met í langstökki án atrennu, stökk 2,45 metra. Landsmetið var 2,27 og þrír einstaklingar áttu metið, samkvæmt gagnagrunni FRÍ. HSK metið var, líkt og þrístökksmetið, í eigu Jóns B. Guðmundssonar og var 2,20 metrar.
Þórsfélagarnir Styrmir Dan Steinunnarsonar og Fannar Yngvi Rafnarsson stukku báðir 1,45 m í hástökki án atrennu. Sá árangur er HSK met hjá Styrmi í 14 ára flokki og metjöfnun hjá þeim báðum í 15 ára flokki. Þeir eiga þar með metið með Sigurði Einarssyni og Jóni Arnari Magnússyni. Þess má geta að Fannar Yngvi átti metið í 14 ára flokki, sett í fyrra.
Áttunda HSK metið sem féll á mótinu setti Eva Lind Elíasdóttir úr Umf. Þór, en hún kastaði kúlunni 12,19 metra og er það 19 sentimetra bæting á HSK metinu í 18- 19 ára flokki stúlkna. Metið átti nafna hennar Eva Sonja Schiöth.
Þar með urðu innanhússmetin hjá HSK alls 48 að tölu árið 2013.