Selfoss tapaði mikilvægum stigum þegar liðið sótti ÍBV heim í Olísdeild karla í handbolta í dag. ÍBV leiddi allan tímann og sigraði 33-30.
Selfyssingar sigldu frá Þorlákshöfn í morgun og sjóferðin sat greinilega eitthvað í þeim í upphafi leiks því ÍBV náði strax þriggja marka forystu. Sjóhundurinn Ísak Gústafsson var ferskastur Selfyssinga framan af en hann skoraði sex af sjö fyrstu mörkum liðsins.
Forskot ÍBV var nánast allan leikinn í þremur til fimm mörkum en staðan í hálfleik var 19-15. ÍBV skoraði tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og Selfyssingar náðu aldrei að koma sér almennilega upp úr þeim öldudal, þó að bilið hafi ekki verið mikið á lokakaflanum.
Ísak var markahæstur Selfyssinga með 12/6 mörk. Atli Ævar Ingólfsson skoraði fimm, EInar Sverrisson og Sölvi Svavarsson 3, Richard Sæþór Sigurðsson 2 og þeir Ragnar Jóhannsson, Hannes Höskuldsson, Sverrir Pálsson, Karolis Stropus og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu allir 1 mark.
Það munaði um markvörsluna í dag en markmenn ÍBV voru betur á verði. Vilius Rasimas varði 6 skot í marki Selfoss og Jón Þórarinn Þorsteinsson 5.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 15 stig en ÍBV er í 6. sæti með 16 stig.