Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar, sem stendur fyrir kjöri á íþróttakonu og – karli Árborgar ár hvert hefur ákveðið að vera áfram með netkosningu við kjörið.
Þessi nýjung gekk mjög vel í fyrra enda gefur hún áhugasömum tækifæri til að taka þátt í kjörinu og hafa áhrif á hverjir eru valdir íþróttakona og – karl Árborgar. Um 700 atkvæði bárust í netkosningunni í fyrra, sem þá var reynd í fyrsta skipti.
Tíu konur og tólf karlar eru tilnefnd í kjörinu en valnefnd greiðir atkvæði í kosningunni og gilda úrslit netkosningarinnar 20% á móti atkvæðum valnefndarinnar.
Kynning á íþróttamönnunum og kosning þeirra á milli er á heimasíðu Árborgar.