KR valtaði yfir Þór í fyrstu viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur voru 83-121.
Þórsarar voru gestrisnir og buðu upp á opið hús í fyrri hálfleik þar sem KR-ingar náðu mest þrjátíu stiga forskoti. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 17-30 en hálfleikstölur 34-62.
Varnarleikur Þórsara var álíka slakur í síðari hálfleik en sóknarleikurinn skánaði aðeins þegar leið á leikinn. Það skipti engu máli því yfirburðir KR-inga voru algjörir.
Benjamin Smith var stigahæstur hjá Þór með 21 stig, Guðmundur Jónsson skoraði 16, David Jackson 14, Þorsteinn Már Ragnarsson 11, Grétar Ingi Erlendsson 9, Darrell Flake 7, Halldór Garðar Hermannsson 2, Erlendur Ágúst Stefánsson 2 og Davíð Arnar Ágústsson 1.
Liðin mætast aftur í Vesturbænum á sunnudagskvöldið þar sem Þórsarar þurfa að ýta bakinu frá veggnum ætli þeir sér að gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum.