Kraftmikil byrjun dugði skammt

Darwin Davis Jr. var stigahæstur Þórsara með 28 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tók á móti Val í 1. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld. Eftir hörkuleik höfðu Valsmenn betur, 81-96.

Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og spiluðu góða vörn. Staðan eftir 1. leikhluta var 25-15 og Þór náði 18 stiga forskoti í upphafi 2. leikhluta. Þá fór að halla undan fæti, varnarleikurinn slaknaði og Valsmenn gengu á lagið.

Gestirnir minnkuðu muninn hratt og staðan í hálfleik var 45-44, Þór í vil. Valsmenn nýttu sér meðbyrinn í upphafi seinni hálfleiks, þar sem Þórsara voru enn að basla í vörninni og á þessum kafla lögðu Hlíðarendapiltar grunninn að sigrinum.

Staðan var orðin 68-77 þegar síðasti fjórðungurinn hófst og Valsmenn kláruðu leikinn af miklu öryggi, án þess að hleypa Þórsurum nálægt sér.

Darwin Davis Jr. var stigahæstur Þórsara með 26 stig, Nigel Pruitt skoraði 15 stig og tók 11 fráköst og Jordan Semple og Tómas Valur Þrastarson skoruðu báðir 14 stig.

Fyrri greinStyrktu Krabbameinsfélag Árnessýslu um hálfa milljón króna
Næsta greinSelfoss byrjar á sigri – Hrunamenn töpuðu