Mörg íþróttafélög á Suðurlandi hafa boðið börnum og unglingum frá Grindavík að mæta á æfingar á næstunni án endurgjalds.
Krakkar frá Grindavík geta æft hjá öllum deildum Ungmennafélags Selfoss og munu Helgi S. Haraldsson, formaður Umf. Selfoss og Klara Bjarnadóttir, formaður Umf. Grindavíkur miðla nauðsynlegum upplýsingum til foreldra og iðkenda frá Grindavík um tengiliði og æfingatíma á Selfossi.
Hamar í Hveragerði býður Grindvíkingum einnig að æfa hjá sér en þar er hægt að komast í fótbolta, körfubolta, blak, badminton, fimleika og sund. Nánari upplýsingar er hægt að fá á Facebooksíðu Hamars.
Þá er krökkum frá Grindavík boðið á körfuboltaæfingar hjá Þór í Þorlákshöfn og hægt að hafa samband við Davíð Arnar Ágústsson, yfirþjálfara yngri flokka, á Messenger fyrir nánari upplýsingar um æfingatíma.