Hamar tapaði sínum fyrsta leik í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi þegar liðið heimsótti Kríu á Seltjarnarnesið.
Krían var spræk í fyrri hálfleik og eftir tólf mínútna leik var staðan orðin 2-0. Heimamenn bættu þriðja markinu við undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 3-0 í hálfleik.
Hamarsmenn svöruðu fyrir sig í seinni hálfleik með mörkum frá Mána Snæ Benediktssyni og Guido Rancez. Staðan var 3-2 þegar tíu mínútur voru eftir en Kría skoraði tvö mörk í blálokin og sigraði 5-2.
Þrátt fyrir tapið er Hamar áfram í 2. sæti deildarinnar með 17 stig en Kría er í 3. sæti með 13 stig.