KFR heimsótti Kríu á Seltjarnarnesið í toppslag 5. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Fyrir leikinn voru liðin einu taplausu liðin í B-riðlinum það sem af er móti.
Kría komst yfir á 10. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins. Rangæingar urðu fyrri til að skora í seinni hálfleik þegar Rúnar Þorvaldsson kom boltanum í netið á 50. mínútu en Kría svaraði jafnóðum fyrir sig og komst í 2-1 þremur mínútum síðar.
Lokakaflinn var dramatískur en Bjarni Þorvaldsson jafnaði metin 2-2 þremur mínútum fyrir leikslok og allt virtist stefna í að liðin yrðu áfram taplaus á toppnum. Kríumenn voru ekki á þeirri skoðun og þeim tókst að skora sigurmark leiksins á annarri mínútu uppbótartímans.
Lokatölur 3-2 og Kría heldur toppsætinu með 9 stig en KFR er nú í 3. sæti með 6 stig.
Rangæingar hófu Íslandsmótið á þremur útileikjum en fyrsti heimaleikur liðsins verður næstkomandi mánudag kl. 16:00 þegar Samherjar frá Hrafnagili í Eyjafirði koma í heimsókn.