Kristín Bára nýr formaður Umf. Selfoss

Kristín Bára Gunnarsdóttir var kjörin formaður Ungmennafélags Selfoss á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Grímur Hergeirsson lét af embætti eftir tveggja ára formennsku.

Fundurinn var vel sóttur og ræðu formanns kom fram að starfið hefur aldrei verið öflugra og mikil bjartsýni rýkir um áframhaldandi vöxt og enn betri árangur á íþróttasviðinu. Heildarvelta félagsins var tæpar 230 milljónir króna og rekstrarniðurstaða réttu megin við strikið.

Auk Kristínar Báru kom Viktor S. Pálsson einnig nýr inn í framkvæmdastjórn. Auk þeirra tveggja eiga sæti í framkvæmdastjórn þau Sveinn Jónsson, Jóhannes Óli Kjartansson og Hróðný Hanna Hauksdóttir.

Mótokrossdeild félagsins fékk afhenta viðurkenningu sem fyrirmyndardeild ÍSÍ. Þar með hafa allar átta deildir félagsins hlotið viðurkenningu sem fyrirmyndardeild. Næsta skref verður að fá viðurkenningu fyrir félagið í heild sinni. Þau Fjóla Signý Hannesdóttir og Jón Daði Böðvarsson voru útnefnd íþróttamaður og íþróttakona Umf. Selfoss. Hallur Halldórsson fékk afhentan Björns Blöndal bikarinn og knattspyrnudeild UMFÍ bikarinn. Þá voru þeir Bergur Pálsson og Kjartan Björnsson sæmdir gullmerki félagsins.

Nokkuð var rætt um komandi Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Er mikill hugur í félagsmönnum Umf. Selfoss gera mótið sem glæsilegast og standa vel að öllu er viðkemur félaginu.

Fyrri greinÞórsarar lengdu í líflínunni
Næsta greinBesti árangur sunnlenskra skóla í Skólahreysti