Kristín valin íþróttamaður ársins

Kristín Lárusdóttir, hestakona úr Hestamannafélaginu Kópi á Kirkjubæjarklaustri, var valin íþróttamaður Skaftárhrepps árið 2011.

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd og íþrótta- og æskulýðsnefnd Skaftárhrepps efndu sameiginlega til hófs í Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri um síðustu helgi þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur á árinu 2011.

Kristín var var útnefnd íþróttamaður ársins en auk hennar fengu frjálsíþróttamaðurinn Ármann Daði Gíslason og knattspyrnumaðurinn Jóhann Gunnar Böðvarsson viðurkenningu.

Félagsmiðstöðin Klaustrið hefur verið mjög dugleg í allskonar keppnum á árinu og fengu nokkrir krakkar viðurkenningu: Hafdís Gígja Rögnvaldsdóttir fyrir þátttöku í söngkeppni félagsmiðstöðva. Rebekka Margrét D. Ágústsdóttir, Tamita Loise Olayvar, Þórhildur Marteinsdóttir og Bjarney Þórarinsdóttir fyrir árangur sinn í hönnunarkeppni félagsmiðstöðva Stíl, en þær fengu verðlaun fyrir hönnun á keppninni.

Þá fengu björgunarsveitirnar Lífgjöf í Álftaveri, Stjarnan í Skaftártungu og Kyndill á Klaustri ásamt Klaustursdeild Rauða Krossins viðurkenningu umhverfis- og náttúruverndarnefndar fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélags síns á neyðartímum þegar Grímsvötn spúðu ösku sinni og Katla minnti á sig með flóði í Múlakvísl.

Fyrri greinSelfoss úr leik í bikarnum
Næsta greinLeitin hafin