Kristinn Þór bikarmeistari í 800m hlaupi

Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands innanhúss fór fram sl. laugardag í Laugardalshöll. HSK eignaðist einn bikarmeistara en Kristinn Þór Kristinsson sigraði í 800m hlaupi.

HSK liðinu gekk ágætlega miðað við aðstæður, en veikindi og meiðsli settu svolítið strik í reikninginn. Karlaliðið stóð sig með ágætum og þar eignaðist HSK bikarmeistara en Kristinn Þór sigraði með miklum yfirburðum í 800m hlaupinu á 1:52,32 mín. Þá varð Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór Þorlákshöfn annar í hástökki en hann fór 1,85m. Hann sleppti svo 1,88m og reyndi við 1,91m sem er jöfnun á hans besta en mistókst í þetta skiptið. Sigurvegarinn fór 1,88m. Þetta er stórgóður árangur í ljósi þess að Styrmir er einungis 15 ára gamall.

Aðrir stóðu sig einnig með ágætum. Til að mynda þá hljóp Fannar Yngvi Rafnarsson Þór Þorlákshöfn sitt annað besta hlaup í 400m er hann varð fimmti á 53,87 sek. og varð svo einnig fimmti í þrístökki með 12,54m, stuttu síðar. Þá varð Ólafur Guðmundsson Selfossi fjórði í 60m grindahlaupinu eftir hörkukeppni á 9,04 sek. en bronssætið var 9,03 sek.

Loks má geta þess að hinn 15 ára Artúr Matevjev úr Þór Þorlákshöfn keppti á sínu fyrsta fullorðinsstórmóti, hann hljóp 60m hlaupið og kom í mark á nýju persónulegu meti, 8,23 sek. Guðmundur Kristinn Jónsson Selfossi keppti í 200m hlaupi á bætingu sem og í 4x400m boðhlaupi ásamt Kristni, Fannari og Styrmi.

Kvennalið HSK var heldur þunnskipað að þessu sinni en fjórar stelpur skipuðu það: Jóhanna Herdís Sævarsdóttir Laugdælum varpaði kúlunni 10,16 m og varð fjórða, Harpa Svansdóttir Selfossi tók fimmta sætið í langstökki með 4,80m og sjötta í þrístökki með 9,76 m. Sólveig Helga Guðjónsdóttir Selfossi keppti í 200m og Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi stökk hástökk.

Að sögn þjálfara og liðstjóra liðsins, Rúnari Hjálmarssyni og Ólafi Guðmundssyni, er stefnan að sjálfsögðu sett á að fullmanna allar stöður í bikar sumarsins sem og á öðrum mótum. Liðið varð í áttunda sæti af átta liðum en Ármann og ÍR C voru hálfu stigi á undan HSK. ÍR A sigraði stigakeppnina, Norðurland varð í öðru sæti og FH í því þriðja.

Fyrri greinKlippt af tólf bílum á Selfossi
Næsta greinFyrsti ART leikskólinn á Íslandi