Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Selfoss, varð um síðustu helgi Íslandsmeistari í 3000 m hlaupi karla á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem haldið var í Laugardalshöllinni.
Kristinn sigraði með yfirburðum og hljóp á 9:03,46 mín. Hann tók ekki þátt í sínum aðalgreinum, 800 m og 1500 m hlaupi vegna smávægilegra meiðsla.
HSK/Selfoss sendi sautján keppendur til leiks á mótið og stóðu þeir sig allir með miklum ágætum. Uppskera helgarinnar var einn Íslandsmeistaratitill ásamt sjö HSK metum, þremur HSK metjöfnunum og þó nokkrum persónulegum bætingum. Uppistaðan í liðinu um helgina voru unglingar sem voru í eldlínunni á dögunum á MÍ 15 til 22 ára þar sem HSK/Selfoss sigraði eftirminnilega.
Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, setti glæsilegt HSK met í 15 ára flokki stúlkna í hástökki er hún rauf 1,70 m múrinn í fyrsta sinn, hún bætti sitt eigið met um tvo cm. Sjaldan hefur hástökkskeppni kvenna verið jafnsterk en fjórir keppendur fóru yfir 1,70 m. Eva María varð í fjórða sæti. Árangur hennar var svo HSK metjöfnun í 16- 17, 18-19 og 20-22 ára flokkum.
Guðrún Heiða Bjarnadóttir, Umf. Selfoss, setti HSK met í undanúrslitum 60 m hlaups kvenna hljóp á 8,01 sek en gamla metið hennar var 8,06 sek. Í langstökkskeppni kvenna varð Guðrún svo í fjórða sæti eftir sentimetrastríð.
Karlasveit HSK/Selfoss í 4×100 m boðhlaupi sem skipuð var þeim Sindra Seim Heklu, Hákoni Birki, Jónasi Grétars og Degi Fannari sem allir eru í Selfoss hljóp mjög vel og bætti viku gamalt HSK met sitt í 16-17 ára flokki, 18-19 ára, 20-22 ára og karla flokki. Þeir hlupu á 1:37,78 mín en gamla metið var 1:38,73 mín. Allir eru þessir hlaupagarpar á aldrinum 15-16 ára.
Dagur Fannar bætti svo eigið HSK met í 800 m hlaupi 16-17 ára þegar hann hljóp á 2:07,82 mín, átti 2;09,8 mín.
HSK/Selfoss varð í 5. sæti í heildarstigakeppni félaganna á meistaramótinu.