Stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands hefur samþykkt tillögu íþrótta- og afreksnefndar FRÍ að landsliðshópi sambandsins fyrir árið 2015. Tveir íþróttamenn af HSK svæðinu eru í hópnum.
Það eru þau Kristinn Þór Kristinsson Samhygð, sem er valinn fyrir árangur í millivegalengdahlaupum og Agnes Erlingsdóttir Laugdælum, fyrir árangur í sprett- og grindahlaupum.
Eftirfarandi viðmiðanir voru m.a. hafðar við val á íþróttamönnum: Aldurstakmark er 16 ára á árinu, en það er sama aldurstakmark og EAA og IAAF setur fyrir þátttakendur í landskeppnum. Sá sem á bestan árangur á árinu í hverri grein kemst í landsliðshóp. Annar maður er valinn í greinina svo fremi sem árangur hans nái yfir 850 stig samkvæmt alþjóðlegu stigatöflunni.
Hópurinn verður endurskoðaður eftir komandi innanhússtímabil.