Frjálsíþróttafólk á HSK-svæðinu hélt sitt árlega lokahóf í Tíbrá á Selfossi um síðustu helgi. Þar var keppnistímabilið 2012 gert upp í máli, myndum, viðurkenningum, hlátrasköllum og hitaeiningum.
Hápunktur kvöldsins var útnefning á frjálsíþróttakarli og -konu ársins að mati þjálfara. Fyrir valinu urðu Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð og Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss.
Kristinn var ósigrandi í sinni aðalgrein 800 m hlaupi í sumar. Hann varð Íslands- og bikarmeistari með miklum yfirburðum ásamt því að verða bikarmeistari í 1.500 m hlaupi einnig.
Kristinn fór erlendis í ágúst og keppti þar á tveim sterkum mótum í 800 m hlaupi og rauf í fysta sinn 1:54 mínútna múrinn er hann hljóp á 1:53,77 mín. Þá bætti Kristinn sinn persónulega árangur í 400 m hlaupi á árinu er hann hljóp á 50,76 sek, en hann átti áður 51,22 sek. Það má því með sanni segja að Kristinn Þór sé millivegalengdakóngur ársins 2012.
Það þarf engum að koma á óvart að Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, var valin frjálsíþróttakona ársins 2012. Fjóla hefur verið í frábæru formi á árinu og óx með hverjum deginum. Hún varð Íslandsmeistari í bæði 100 og 400 metra grindahlaupum auk þess að verða Íslandsmeistari í hástökki innan og utanhúss sem og bikarmeistari innahúss. Það má því með sanni segja að Fjóla sé grindahlaupsdrottning Íslands árið 2012.
Fjóla vann svo til fjölda gull,- silfur- og bronsverðlauna á mótum sumarsins. Hún kom sérstaklega sterk inn seinnihluta sumars og skal minnst á HSK-met hennar í 200 m hlaupi en þar bætti hún áratuga gamalt met Unnar Stefánsdóttur, Samhygð, er hún hljóp á 25,54 sek. sem hún bætti svo í byrjun september er hún hljóp á 25,51 sek á sænska meistaramótinu í sjöþraut. Á því móti bætti Fjóla sig um tæp 400 stig er hún náði 5.041 stigi sem er 9. besti árangur Íslendings í greininni frá upphafi. Til viðbótar þessu þá setti Fjóla fimm HSK-met.