Kristinn Þór Kristinsson, HSK, kom fjórði í mark í 800 m hlaupi á Evrópubikamótinu í frjálsum íþróttum í Banská Bystrica í Slóvakíu í dag. Kristinn bætti sinn besta árangur, hljóp á 1:52,44 mín og sló 22 ára gamalt HSK met Friðriks Larsen.
Gamla metið setti Friðrik árið 1991 en sá tími var 1:52,69 mín. Um góða persónulega bætingu var að ræða hjá Kristni en hann átti fyrir tímann 1:53,77 mín utanhúss.
Kristinn var sjöundi í hlaupinu í dag áður en hann tók frábæran endasprett og stakk sér fram úr þremur keppinautum sínum. Hann tryggði Íslandi 12 stig með þessu en Evrópubikarkeppnin er liðakeppni og er Ísland í 3. deild með fjórtán öðrum þjóðum.
Fjóla Signý Hannesdóttir varð í 6. sæti af þrettán keppendum í 100 m grindahlaupi á 14,64 sekúndum og var nokkuð frá sínu besta og sömu sögu má segja um Hrein Heiðar Jóhannsson sem varð tólfti í hástökkinu í gær. Hreinn Heiðar fór yfir 1,90 m í þriðju tilraun og gerði svo tvívegis ógilt þegar hann reyndi við 1,95 m.