Við upphaf Íslandsglímunnar á Laugarvatni heiðraði Glímusamband Íslands þrjá einstaklinga fyrir þeirra ómetanlegu sjálfboðaliðsstörf fyrir glímuna til áratuga og koma þeir allir frá HSK.
Kristinn Guðnason á Þverlæk var gerður að heiðursfélaga sambandsins en í 59 ára sögu GLÍ hafa átján einstaklingar hlotið þessa viðurkenningu. Grímsnesingurinn Ólafur Oddur Sigurðsson, búsettur á Selfossi og Stefán Geirsson í Gerðum í Flóahreppi voru sæmdir gullmerki GLÍ.
Kristinn Guðnason hefur í áratugi verið forystumaður í glímu hjá HSK. Hann hefur átt farsælan keppnisferil en hann fór snemma að koma að öðru innan glímunnar og var hann formaður Glímuráðs HSK í rúma tvo áratugi.
Stefán átti afskaplega farsælan feril sem glímumaður og tók þátt í fjölda móta og glímusýninga, bæði hérlendis sem og erlendis. Hann hefur sinnt þjálfun í um tvo áratugi og hefur undanfarinn áratug verið formaður Glímuráðs HSK.
Ólafur Oddur hefur átt góðan feril í glímu en hann vann meðal annars Grettisbeltið árið 2003. Hann sat lengi í stjórn GLÍ, var formaður og framkvæmdastjóri í 10 ár og sinnir nú landsliðinu sem þjálfari.