Kristrún komin heim

Kristrún Rut Antonsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnukonan Kristrún Rut Antonsdóttir mun ganga til liðs við Selfoss þegar félagaskiptaglugginn opnar á nýjan leik í lok júní.

Kristrún, sem er 26 ára miðjumaður, lék síðast á Selfossi sumarið 2018 en hún hefur komið víða við í Evrópu á síðustu árum, leikið með Chieti og AS Roma á Ítalíu, Avaldsnes í Noregi, BSF í Danmörku, Mallbackens í Svíþjóð og nú síðast með St. Pölten í Austurríki en hún varð austurrískur meistari með liðinu í vor. Hún hefur leikið 117 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss, þar af 55 í efstu deild.

„Það er frábært að fá Kristrúnu í okkar hóp. Við þekkjum hana vel og hún er leikmaður að mínu skapi. Hún getur leyst margar stöður, er ósérhlífin og vill vinna mikið og æfa mikið. Hún kemur með gæði og reynslu inn í hópinn og svo er hún með stórt Selfosshjarta, þannig að það er mikil tilhlökkun að fá hana heim,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss, í fréttatilkynningu frá Selfyssingum.

Fyrri greinSumarhátíð í Heiðarblóma á Stokkseyri
Næsta greinÖllum samkomutakmörkunum aflétt á morgun