Selfoss vann mikilvægan sigur á Hömrunum í toppbaráttu 1. deildar kvenna í knattspyrnu, í Boganum á Akureyri í dag.
Fyrir leikinn voru Selfyssingar með 13 stig í 3. sæti deildarinnar en Hamrarnir hefðu getað jafnað Selfoss að stigum með sigri.
Svo fór ekki og Selfoss komst í 2-0 í fyrri hálfleik. Magdalena Reimus og Kristrún Rut Antonsdóttir skoruðu þá fyrir þær vínrauðu og Kristrún innsiglaði svo 3-0 sigur Selfoss með öðru marki sínu í síðari hálfleik.
Selfoss hefur nú 16 stig í 3. sæti deildarinnar og er tveimur stigum á eftir HK/Víkingi og Þrótti R sem eru með 18 stig í 1. og 2. sæti.