Handknattleiksdeild Selfoss hefur fengið góðan liðsstyrk en þær Kristrún Steinþórsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir hafa samið við félagið til næstu tveggja ára.
Kristrún er rétthent skytta og er uppalin Selfyssingur. Hún spilaði með Selfoss til ársins 2019 þegar hún söðlaði um og fór í Fram. Hún á að baki 139 leiki fyrir Selfoss og hefur skorað í þeim 401 mark. Hún hefur verið lykilmaður í sterku liði Fram síðustu ár þar sem hún hefur m.a. orðið Íslandsmeistari í fyrra og bikarmeistari árið 2020. Þá á hún 3 A-landsleiki að baki.
Lena Margrét er örvhent skytta og er uppalin í Fram en hefur leikið síðustu tvö ár með Stjörnunni. Hún á að baki Íslandsmeistaratitil með Fram 2018 auk bikarmeistaratitla árið 2018 og 2020. Hún var ein af markahæstu leikmönnum Olísdeildar kvenna með 109 mörk í 21 leik. Þá hefur hún spilað 5 A-landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk auk þess að hafa verið fastamaður í öllum yngri landsliðum Íslands. Lena Margrét er Selfyssingur í annan fótinn en faðir hennar er Valdimar Þór Svavarsson.
Í tilkynningu frá Selfyssingum segir að deildin sé gríðarlega ánægð að fá þær Kristrúnu og Lenu til liðs við meistaraflokk kvenna og ljóst að þær munu styrkja liðið mikið í komandi átökum.