Kröftugir Crossfittarar úr Hengli

Fimm lið frá Crossfit Hengli í Hveragerði kepptu með góðum árangri á Crossfitleikum Þrekmótaraðarinnar sem fram fór síðastliðinn laugardag í Kaplakrika í Hafnarfirði.

Alls mættu 28 keppendur frá Crossfit Hengli á mótið og kepptu þeir í fimm liðum, tveimur kvennaliðum og þemur karlaliðum auk tveggja keppenda í einstaklingskeppninni. Árangurinn var vel ásættanlegur, annað kvennaliðið hafnaði í 9. sæti af 30 liðum og hitt í því 20. Karlaliðin röðuðu sér í 14. 18. og 25.sæti.

Arnar Páll Gíslason hafnaði í 13. sæti í einstaklingskeppninni og Gunnar Ingi Þorsteinsson í 17. sæti.

Reyndar átti Hengill eina dömu á palli en Anna Guðrún Halldórsdóttir keppti með kvennaliði úr Crossfit Hafnarfirði og sigruðu þær í liðakeppni 39+ og urðu í 3. sæti í opna flokknum.

Mótin á þrekmótaröðinni eiga það sameiginlegt að reyna á þrek, styrk, þol og snerpu keppenda. Öllum er frjálst að keppa í Þrekmótaröðinni, óháð æfingastöð, íþróttabakgrunni eða reynslu og er því um að ræða jákvæða áskorun sem allir geta tekið þátt í.

Keppt er í einstaklingskeppni og fimm manna liðakeppni karla og kvenna í opnum flokki og 39 ára og eldri. Einnig er keppt í parakeppni þar sem karl og kona keppa saman. Stig eru gefin fyrir sæti í öllum riðlum og í lok árs fá sigurvegarar hvors kyns svo titilinn „Hraustasti maður og kona Íslands“ . Hraustustu lið og pör ársins fá einnig þennan veglega titil og farandsverðlaun.


Anna Guðrún Halldórsdóttir með verðlaun sín. sunnlenska.is/Rúna Einarsdóttir

Fyrri greinMarkmið sett á hugarflugsfundi
Næsta greinÁsetningur mannsins að vinna konunni mein