Kvennabolti á tímamótum: Kvennakvöld á Sviðinu

Fyrsta kvennalið Selfoss árið 1984.

Fyrir rúmum fjörtíu árum síðan söfnuðu ungar stelpur undirskriftum til stuðnings stofnun meistaraflokks kvenna á Selfossi.

Mikill stuðningur Selfossbúa leiddi til þess að Selfossliðið varð að veruleika. Ráðinn var þjálfari, æfingar hófust og lið var skráð til keppni. Má segja að upphaf kvennastarfs og uppbygging góðs yngri flokka starfs megi rekja til þessa framtaks árið 1984.

Stelpurnar voru mættar á völlinn! Við minntumst m.a. æfingartíma kl. 22:15 til 23:30 í íþróttahúsinu sem voru einu lausu æfingartímarnir fyrir okkur stelpurnar, erfiðra flugferða til Ísafjarðar og Siglufjarðar til að spila leiki, skemmtilegra þjálfara og ýmsum furðulegum uppákomum. Vondir malarvellir, erfið meiðsli sem enn má finna fyrir, skrúfutakkar og hitakrem!

Frumkvöðlar og stofnendur hittast.

Margir sigrar hafa unnist síðan þá og liðið hefur spilað meðal þeirra bestu og unnið sætra sigra. Yngri flokkar hafa vaxið og dafnað sl. ár og stutt þannig við grósku alls starfs innan kvennaboltans.

Nú eru starfræktir yngri flokkar, sem styður sannarlega við meistaraflokkinn þar sem ungir og efnilegir leikmenn koma upp á ári hverju. Segja má að með blómlegu yngri flokka starfi sé grunnur að uppgangi meistaraflokks því án þess væri lítið að byggja á.

Bikarmeistarar 2019. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Miðvikudaginn 23. apríl verður haldið kvennakvöld til að styðja við stelpurnar í meistaraflokki. Þær þurfa nú stuðning og hvetjum við fyrrum leikmenn, mömmur, ömmur og systur að mæta á Sviðið og eiga saman skemmtilegt kvöld. Rifjaðar verða upp gamlar sögur, Dísa skemmtikraftur og áhrifavaldur mætir, fordrykkur í boði CCEP, goodie bag fyrir fyrstu 50 sem mæta, happadrætti og fleira. Laufey Guðmundsdóttir, fyrrum þjálfari og leikmaður og einn af stofnendum liðsins sér um veislustjórn. Þetta verður því sannkölluð veisla.

Miða má nálgast á svidid.is.

F.h. stofnenda meistaraflokks kvenna Selfoss,
Laufey Guðmundsdóttir

Fyrri greinGrótta stóru skrefi á undan
Næsta greinForvarnardagur ML og sviðsett slys