Á aðalfundi Golfklúbbs Þorlákshafnar sem haldinn var nýlega var ákveðið að lækka árgjaldið í golfklúbbinn og er það nú 46 þúsund krónur.
Jafnframt var nýliðagjald í klúbbnum lækkað og greiða nýliðar 21 þúsund krónur á fyrsta ári og 25 þúsund krónur á öðru ári, eða sem svarar einu árgjaldi á tveimur árum. Þessi lækkun gjalda er ekki síst hugsuð til að höfða til aðþrengdra höfuðborgarbúa, en þeim hefur fjölgað nokkuð í klúbbnum á liðnum árum.
Á aðalfundinum flutti formaður klúbbsins, Guðmundur K. Baldursson skýrslu stjórnar og var mikil ánægja með skýrsluna, en rekstur klúbbsins var með ágætum. Guðmundur var endurkjörinn formaður og engar breytingar urðu á stjórn klúbbsins.
Stjórnin ákvað að verðlauna Ástu Júlíu Jónsdóttur með heiðursviðurkenningu GÞ ársins 2013. Ásta Júlía hefur unnið gott sjálfboðastarf í þágu kvennamála við Golfklúbb Þorlákshafnar og er virkur meðlimur í öllu starfi klúbbsins.
Edwin Roald Rögnvaldsson lokaði svo fundinum með því að fara yfir framtíðarhugmyndir Þorláksvallar. Mikil ánægja var með erindi hans og nokkur umræða skapaðist í kjölfarið. Edwin, ásamt stjórn klúbbsins, mun á næstu vikum vinna áætlun um þessar breytingar. Í fréttatilkynningu frá GÞ segir að óhætt sé að segja að framundan séu spennandi tímar hjá GÞ og vonandi að kylfingar sem og aðrir fái gott og skemmtilegt golfsumar.
Verðskrá GÞ
Fullt gjald: 46.000 kr. (áður 49.000)
Makar og 67 ára og eldri: 23.000 kr. (áður 24.500)
Unglingar 20 – 22 ára: 23.000 kr. (áður 24.500)
Byrjendur 1. ár: 21.000 kr. (áður 23.000)
Byrjendur 2. ár: 25.000 kr. (áður 27.000)
19 ára og yngri: Frítt í klúbbinn