Hrunamenn töpuðu stórt í síðasta leiknum fyrir jól í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Topplið Hauka, lærisveinar Máté Dalmay, komu í heimsókn í Hreppinn og sigruðu 76-120.
Haukar náðu fljótlega undirtökunum í leiknum og forskot þeirra jókst jafnt og þétt allan leikinn. Staðan í hálfleik var 40-69.
Clayton Ladine, Yngvi Freyr Óskarsson og Karlo Lebo skoruðu allir 15 stig fyrir Hrunamenn og Óðinn Freyr Árnason skoraði 11 stig. Ladine sendi 9 stoðsendingar að auki og Lebo tók 8 fráköst.
Hrunamenn eru áfram í 8. sæti deildarinnar með 8 stig en Haukar eru á toppnum með 22 stig.