Lærisveinar Patreks sendu Íslandsmeistarana í sumarfrí

Atli Ævar Ingólfsson skoraði sjö mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Selfoss eru úr leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta eftir tveggja marka tap gegn Stjörnunni á heimavelli í dag, 28-30. Selfoss vann fyrri leikinn 26-24 og einvíginu lauk því með jafntefli, 54-54, en Stjarnan fer áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari, sem gerði Selfoss að Íslandsmeisturum vorið 2019, þjálfar nú Stjörnuna og það kryddaði einvígið á skemmtilegan hátt. Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi lengst af. Staðan í hálfleik var 13-14 en Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik, skoraði fimm mörk í röð og breytti stöðunni í 18-14. Þá kom frábær 7-2 kafli hjá Stjörnunni sem jafnaði 25-25.

Síðustu tíu mínúturnar voru ekki fyrir hjartveika en Stjarnan komst þremur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir og þrátt fyrir að Vilius Rasimas hafi varið tvö síðustu skot Stjörnunnar tókst Selfyssingum ekki að finna þetta eina mark sem þeim vantaði til þess að tryggja sér farseðilinn í undanúrslitin gegn Haukum.

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 6/3, Ragnar Jóhannsson 5, Einar Sverrisson og Nökkvi Dan Elliðason 3, Tryggvi Þórisson 2 og Alexander Már Egan 1. Vilius Rasimas varði 15 skot í marki Selfoss.

Fyrri greinGul viðvörun á Suðurlandi
Næsta greinSkautafélagið sterkara á svellinu