Handknattleiksdeild Umf. Selfoss og Landsbankinn á Selfossi hafa endurnýjað samstarf sitt og verður bankinn aðalstyrktaraðili allra flokka deildarinnar næstu tvö árin.
„Við erum afar stolt af stuðningi okkar við handknattleikinn á Selfossi á síðustu árum og fögnum góðum árangri deildarinnar bæði í yngri flokkum og meistaraflokkum karla og kvenna,“ segir Nína Guðbjörg Pálsdóttir, útibússtjóri Landsbankans á Selfossi. „Landsbankinn á Selfossi stendur þétt að baki handboltanum á Selfossi. Markmiðið með samstarfssamningi okkar er fyrst og fremst að efla íþrótta- og forvarnarstarf á vegum handknattleiksdeildarinnar.“
„Við erum afar þakklát fyrir stuðning Landsbankans. Það er mikilvægt að hafa traustan bakhjarl og samstarf okkar við Landsbankann hefur verið farsælt á síðustu árum ,” sagði Hallur Halldórsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, við undirritun samningsins.