Sú ákvörðun hefur verið tekin af Landssambandi hestamannafélaga, Félagi hrossabænda og Rangárbökkum, þjóðaleikvangi íslenska hestsins ehf. að fresta Landsmóti hestamanna sem fara átti fram á Hellu dagana 6. til 11. júlí næstkomandi.
Í samráði við Hestamannafélagið Sprett mun mótið fara fram á Hellu sumarið 2022. Af þeim sökum verður Landsmót hestamanna haldið í Kópavogi árið 2024 í stað 2022 eins og samningar gerðu ráð fyrir.
Þeim aðilum sem sótt höfðu um að halda landsmótið 2024 hefur verið gefin kostur á að færa þær umsóknir yfir á landsmótið árið 2026.
„Sú heilsufarsvá sem stafar af COVID-19 faraldrinum á heimsvísu er ekki liðin hjá og mun hafa ýmsar takmarkanir í för með sér á næstu mánuðum. Í máli sóttvarnalæknis, Þórólfs Guðnasonar hefur komið fram að fjöldasamkomur skuli takmarkaðar við 2000 manns a.m.k. út ágústmánuð. Landsmót hestamanna er því of fjölmenn samkoma til að hægt sé að halda hana í sumar,“ segir í tilkynningu frá mótshöldurum.