Keppt verður í átta greinum starfsíþrótta á Landsmóti UMFÍ á Selfossi í sumar.
Héraðssambandið Skarphéðinn má senda fjóra keppendur í hverja grein, og er starfsíþróttanefnd HSK byrjuð að velja fólk í liðið. Þær greinar sem keppt verður í eru dráttarvélarakstur, gróðursetning, hrossadómar, jurtagreining, lagt á borð, pönnukökubakstur, stafsetning og starfshlaup.
Þegar er búið að velja keppendur í nokkrar af þessum greinum, en velkomið er að hafa samband hafi fólk ábendingar um mögulega keppendur.
Undankeppni (héraðsmót) í þremur greinum, pönnukökubakstri, lagt á borð og stafsetningu, verður haldin sunnudaginn 2. júní nk. í Flóaskóla. Mótið er hluti af hátíðinni Fjör í Flóa sem haldin er í Flóahreppi þá helgi. Skráningar berist til formanns starfsíþróttanefndar, Fanneyjar Ólafsdóttur á netfangið fanneyo@emax.is eða í síma 892-4155 eigi síðar en 30. maí. Reglugerðir fyrir greinarnar má finna á www.umfi.is undir fyrirsögninni verkefni. Einnig má nálgast allar nánari upplýsingar um mótshaldið hjá formanni starfsíþróttanefndar.
Fólk er hvatt til að mæta í skemmtilega keppni þann 2. júní nk. og freista þess að vinna sér sæti í landsmótsliðinu. Nú er tækifærið!
Fanney Ólafsdóttir, formaður starfsíþróttanefndar HSK