Langsóttur séns á sófameistaratitli

Guðjón Baldur Ómarsson stígur dans með varnarmanni Framara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á Fram-2 í lokaumferð 1. deildar karla í handbolta í Set-höllinni Iðu á Selfossi í dag, 38-30.

Það var jafnræði með liðunum framan af leik en í stöðunni 6-6 tóku Selfyssingar frumkvæðið og staðan í hálfleik var orðin 21-15. Heimamenn héldu öruggu forskoti allan seinni hálfleikinn og sigruðu að lokum með átta marka mun.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk, Sölvi Svavarsson, Álvaro Mallols, Guðjón Baldur Ómarsson, Jason Dagur Þórisson og Haukur Páll Hallgrímsson skoruðu allir 4 mörk, Elvar Elí Hallgrímsson 3 og þeir Valdimar Örn Ingvarsson, Jónas Karl Gunnlaugsson, Anton Breki Hjaltason, Árni Ísleifsson og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu allir 1 mark.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 15 skot í marki Selfoss og Ísak Kristinn Jónsson varði 3 skot.

Selfyssingar eru sem stendur í efsta sæti deildarinnar og eiga séns á sófameistaratitli um næstu helgi en líkurnar eru ekki með þeim. Til þess að svo verði þarf Þór Akureyri að tapa gegn botnliði HK-2 fyrir norðan. Fái Þórsarar stig út úr leiknum verða þeir deildarmeistarar en Selfyssingar mæta þá Víkingi í umspili um sæti í úrvalsdeildinni. Í hinni viðureign umspilsins mætast Fjölnir og Hörður Í.

Fyrri greinSelfoss aftur upp í 4. sætið
Næsta greinFæreyjaferð blokkflautusveita Tónlistarskóla Árnesinga