Lárus Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Hamars í körfubolta. Lárus þekkir vel til í Hveragerði enda annar leikjahæsti leikmaður félagsins í úrvalsdeild.
Lárus tekur við af Ágústi Björgvinssyni sem þjálfað hefur karlaliðið undanfarin þrjú og hálft tímabil. Hamarskarlar féllu niður í 1. deild á nýliðnu keppnistímabili.
Samningur Lárusar er til tveggja ára og í samtali við sunnlenska.is sagði hann að starfið leggðist vel í sig. „Næstu skref eru að skoða mannskapinn fyrir næsta vetur en það er ljóst að ungir og efnilegir heimamenn munu fá tækifæri á að spreyta sig í bland við reyndari leikmenn. Það er nægur efniviður hér á svæðinu,“ sagði Lárus sem reiknar með að spila sjálfur með liðinu.
Lárus er 33 ára gamall en hann lék með Hamri um árabil og er annar leikjahæsti leikmaður liðsins frá upphafi í úrvalsdeild. Hann gekk aftur í raðir Hamars í vor eftir að hafa millilent hjá Njarðvík frá því að hann kom heim úr námi í Danmörku síðasta haust.
Lárus hefur einnig leikið með KR og Fjölni í úrvalsdeildinni en þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur að sér þjálfun í meistaraflokki.