Íþrótta- og ólympíusamband Íslands heiðraði fjóra Sunnlendinga á Héraðsþingi HSK sem haldið var í Árnesi í síðustu viku. Sambandið veitti eitt gullmerki og þrjú silfurmerki
Lárus Ingi Friðfinns Bjarnason var sæmdur gullmerki ÍSÍ fyrir sín góðu sjálfboðaliðsstörf fyrir hreyfinguna. Lárus er faðir körfuboltans í Hveragerði en hann átti sæti í fyrstu stjórn Íþróttafélagsins Hamars árið 1992 og sama ár stofnaði hann ásamt fleirum körfuknattleiksdeild innan félagsins. Lárus Ingi sat um árabil í aðalstjórn Hamars og var formaður körfuknattleiksdeildarinnar frá upphafi allt til ársins 2021, eða í 29 ár. Hann hefur einnig setið í stjórn KKÍ og er virkur í starfi HSK en hann situr nú í varastjórn sambandsins. Lárus var sæmdur silfurmerki ÍSÍ árið 1999. Hann hlaut gullmerki KKÍ árið 2017 og Gullmerki Hamars 2017.
Þrír aðrir sjálfboðaliðar innan hreyfingarinnar voru sæmdir silfurmerki við sama tilefni. Þau Gissur Jónsson og hjónin Þórdís Bjarnadóttur og Ófeigur Ágúst Leifsson.
Gissur starfaði sem framkvæmdastjóri Umf. Selfoss frá 2013 til 2023 en áður en hann tók við því starfi var hann öflugur félagsmaður í knattspyrnudeild Selfoss og meðal annars hélt hann utan um getraunastarf félagsins af miklum myndugleik. Gissur átti sæti í stjórn UMFÍ frá 2019 til 2023.
Þau Þórdís og Ófeigur hafa í áraraðir unnið saman að framgangi íþróttastarfs fatlaðra hjá Suðra. Stór áfangi á þeirri vegferð er þátttaka Suðra í verkefninu Allir með sem hófst á síðasta ári. Þórdís tók fyrst sæti í stjórn Suðra árið 2010 og var formaður félagsins frá 2012 til 2019. Hún kom að nýju inn í stjórn Suðra 2021 og hefur verið ritari stjórnar síðan þá. Auk þess að vera formaður Suðra frá árinu 2021 hefur Ófeigur verið formaður taekwondodeildar Umf. Selfoss, nær óslitið, frá stofnun deildarinnar árið 2007 og hefur samhliða því setið í aðalstjórn Umf. Selfoss í 16 ár.