Ægismenn töpuðu 2-3 á heimavelli í dag þegar Dalvík/Reynir kom í heimsókn í fyrstu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Liam Killa og Ágúst Freyr Hallsson skoruðu mörk Ægis.
Leikurinn var rólegur fyrsta korterið en þá hertu Ægismenn tökin og áttu nokkrar fínar sóknir. Á 19. mínútu átti Andri Sigurðsson góðan sprett inn í vítateig D/R og sendi fyrir á Darko Matejic sem slapp framhjá markverðinum en skaut í stöngina og útaf úr galopnu færi. Mínútu síðar slapp Matejiic aftur innfyrir en skaut nú framhjá markinu.
Á 23. mínútu komust Ægismenn yfir. Enn og aftur var Matejic á ferðinni þegar hann slapp innfyrir hægra megin og renndi boltanum fyrir á Liam Killa sem átti ekki í neinum vandræðum með að skora, 1-0. Ægismenn réðu lögum og lofum þegar leið á fyrri hálfleikinn en gestirnir náðu að jafna gegn gangi leiksins á 33. mínútu. Aukaspyrna frá vinstri barst inn á teiginn þar sem Andri Þór Arnarson, markvörður Ægis, missti boltann frá sér og gestirnir potuðu honum í netið. Ægismenn fengu síðan rennblauta tusku í andlitið á 38. mínútu þegar einn gestanna tók sig til og skoraði með skoti frá miðjuboganum og yfir Andra Þór sem var framarlega í vítateignum. Staðan skyndilega orðin 1-2 og þannig var hún í hálfleik en gestirnir voru nálægt því að bæta þriðja markinu við á 43. mínútu þegar einn þeirra skallaði boltann rétt framhjá af stuttu færi.
Ægismenn voru allsráðir í seinni hálfleiknum og sóttu látlaust. Gestirnir áttu eitt skot að marki í seinni hálfleik og það rataði í netið. Á 61. mínútu geystust norðanmenn í skyndisókn og eftir fyrirgjöf frá vinstri skallaði sóknarmaður D/R boltann framhjá Andra Þór.
Það tók Ægi aðeins fimm mínútur að minnka muninn. Ágúst Freyr Hallsson geystist þá inn í vítateig D/R og féll eftir tæklingu varnarmanns. Snertingin var lítil ef einhver og gestirnir voru skiljanlega ákaflega ósáttir við dóminn. Ágúst Freyr kippti sér ekki upp við það, fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi.
Síðustu tuttugu mínúturnar reyndu Ægismenn allt hvað af tók að jafna en færin voru mjög fá. Besta færið fékk Tómas Aron Tómasson á 83. mínútu en hann skaut framhjá þar sem hann var dauðafrír á fjærstöng eftir aukaspyrnu Aco Pandurevic frá hægri. Vörn gestanna var virkilega þétt og hún hélt til loka, 2-3, og Ægismenn virkilega svekktir með þessi úrslit.