Laugalandsskóli datt í lukkupottinn

Frá Ólympíuhlaupi ÍSÍ í Laugalandsskóla. Ljósmynd/Aðsend

Átta grunnskólar af sambandssvæði HSK tóku þátt í árlegu Ólympíuhlaupi ÍSÍ nú í haust. Með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur í grunnskólum landsins til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Hver skóli fær viðurkenningu þar sem fram kemur hversu margir nemendur tóku þátt og heildarfjöldi kílómetra sem nemendur lögðu að baki. Þátttakan í ár var með allra besta móti, en 72 grunnskólar hafa skilað inn niðurstöðum. Þátttakendur voru í heildina 18.690 og nemendur landsins hlupu samtals 76.648 kílómetra, sem eru tæpir tveir hringir í kringum jörðina.

Laugalandsskóli í Holtum var einn þriggja skóla sem voru dregnir út og hlutu þátttökuverðlaun. Hinir skólarnir voru Tálknafjarðarskóli og Stapaskóli í Reykjanesbæ. Hver þessara þriggja skóla fær 150.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu.

Sunnlensku skólarnir sem tóku þátt í hlaupinu auk Laugalandsskóla voru Stekkjaskóli og Sunnulækjarskóli á Selfossi, Kerhólsskóli í Grímsnesi, Reykholtsskóli í Biskupstungum, Grunnskólinn í Þorlákshöfn, Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri og Bláskógaskóli Laugarvatni.

Hér fyrir neðan eru nokkrar glæsilegar myndir úr Ólympíuhlaupi ÍSÍ í Laugalandsskóla.

Fyrri grein„Svo er lífið náttúrulega grátbroslegt“
Næsta greinHarmar að verkfallsvopninu sé beitt