Selfoss tapaði 2-0 þegar liðið sótti Fylki heim í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Bæði mörk Fylkis komu í fyrri hálfleik.
„Það var leiðinlegt að tapa, en þetta er ekki í fyrsta skiptið eða síðasta skipti sem við töpum og nú förum við bara að fókusera á næsta leik. Við höfum átt marga góða leiki í röð og seinni hálfleikurinn í dag var bara skemmtilegur og jafn leikur. En Fylkisliðið er bara betra en okkar lið í dag,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.
Selfyssingar urðu fyrir áfalli á 10. mínútu þegar Andy Pew fór meiddur af velli. Í kjölfarið tóku Fylkismenn stjórnina á leiknum og skoruðu tvívegis, á 28. og 40. mínútu.
Selfoss komst betur inn í leikinn í seinni hálfleik en færin voru fá og Fylkismenn voru nær því að bæta við marki.
Með sigrinum styrkti Fylkir stöðu sína í toppsætinu, þar sem liðið hefur 19 stig, en Selfyssingar eru í 4. sæti með 13 stig.