Sunnudaginn 8. febrúar mun Ásthildur Jónsdóttir sýningarstjóri sýningarinnar „Ákall“ bjóða upp á leiðsögn um sýninguna og í framhaldinu bjóða þátttakendum að taka þátt í listasmiðunni „Okkar náttúra – mínar óskir fyrir framtíðina“.
Verkin sem voru valin á sýninguna Ákall tengjast öll orðræðunni um sjálfbæra þóun og þeim siðferðilegu málefnum sem hún vekur. Höfundar verkanna eru tuttugu og fjórir myndlistarmenn sem sýningarstjórinn, Ásthildur B. Jónsdóttir, valdi verk eftir fyrir sýninguna vegna þess að þau eiga það sameiginlegt að vekja gagnrýna hugsun sem hvetur áhorfendur til að taka afstöðu til þeirra málefna sem verið er að vinna með hverju sinni og krefur þá jafnvel til þátttöku.
Á sunnudaginn mun Ásthildur bjóða upp á leiðsögn um sýninguna og í framhaldinu bjóða þátttakendum að taka þátt í listasmiðunni Okkar náttúra – mínar óskir fyrir framtíðina. Með þátttöku vill Ásthildur hvetja gesti safnsins að taka virkan þátt og skoða um leið eigin lifsviðhorf til málefnisins.
Verkin á sýningunni velta m.a. upp vangaveltum um fegurð í hinu smáa, samhengi hluta og viðfangsefna, margslungnu sambandi náttúrunnar og hins manngerða, eðli flokkunarkerfa og neysluhyggju. Hver eru tengsl þekkingar, staðar og stundar? Hvernig getum við brugðist við breytingum í umhverfi okkar? Hvaða svigrúm hefur einstaklingurinn til að breyta sínu kerfisbundna daglega lífi? Hvernig getum við skapað samábyrgt þjóðfélag? Hver er mín ábyrgð? eru dæmi um spurningar sem vakna þegar sýningin er skoðuð.
Sýningin Ákall mun standa til og með sumardagsins fyrsta, 23. apríl.
Listasafn Árnesinga er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.